Vísir hefur fjallað um heldur leiðinlegt veður sem hefur verið á Tenerife að undanförnu; þar hefur verið talsvert hvassviðri sem hefur dregið með sér sand frá Sahara yfir eyjuna. Fréttastofa ræddi við Svala Kaldalóns, ferðamálafrömuð sem búsettur er á Tenerife af því tilefni og kom fram í viðtali við hann að áætlað væri að þar dveldu nú yfir hátíðirnar milli 8 til 9 þúsund Íslendingar.
Vísi barst í kjölfarið fyrirspurn frá Leo Lunde, sem er ritstjóri norsks netmiðils sem gefinn er út á Kanaríeyjum, Canariavisen.
Leo Lunde segir að nokkrir Íslendingar séu meðal lesenda miðilsins og þeir hafi sett sig í samband við ritstjórnina vegna fréttar Vísis þar sem fram komi að milli átta til níu þúsund Íslendingar séu um þessar mundir á Tenerife. Hvort þetta gæti verið?!
„Tekur sú tala til ársins alls eða er tilfellið að þeir séu þarna allir í einu? Ef svo er þá þýðir þetta að um 2,4 prósent þjóðarinnar hafi farið til Tenerife í einu?“ spyr Leo Lunde forviða. Blaðamaður tjáði Leo að Íslendingar ættu það til að vera öfgafullir í því sem þeir taka sér fyrir hendur og það væri til málsháttur á íslensku: Þegar ein beljan mígur verður annarri mál.
Leo óskaði þá eftir símanúmeri á Svala Kaldalóns, hann vildi heyra nánar í honum því þetta væri sannarlega í frásögur færandi. Sennilega heimsfrétt.