Pelé er helst minnst fyrir afrek sín með brasilíska landsliðinu. Hann varð þrívegis heimsmeistari með Brasilíu, eitthvað sem enginn annar hefur afrekað. Hann skoraði 77 mörk í 92 landsleikjum og er markahæstur í sögu brasilíska landsliðsins ásamt Neymar.
Pelé lék allan ferilinn með Santos í heimalandinu fyrir utan tvö ár sem hann var í herbúðum New York Cosmos í Bandaríkjunum. Pelé er einn mesti markaskorari allra tíma en á 21 árs löngum ferli er hann sagður hafa skorað 1281 mark í 1363 leikjum.
Ævi Pelés var löng og viðburðarrík og erfitt að draga hana saman í stuttu máli eða fáum myndum. En AP-fréttastofan reyndi það og birti í gær fjögur myndbönd þar sem ævi Pelés er gerð góð skil.
Myndböndin eru samtals um 25 mínútur og má sjá hér fyrir neðan.
Hér má meðal annars sjá frá leikjum Pelés á HM 1958-70 og í leikjum með Santos.
Hér má meðal annars sjá brot úr leikjum Pelés með New York Cosmos, Pelé ásamt Gerald Ford og Jimmy Carter í Hvíta húsinu og Pelé ásamt Michael Caine við tökur á kvikmyndinni Escape to Victory.
Hér má meðal annars sjá viðtöl við Pelé og hann í samskiptum við ýmsa fræga einstaklinga, meðal annars Elton John, Nelson Mandela og Diego Maradona og Pelé með Ólympíueldinn.
Hér má meðal annars sjá viðtöl við Pelé, hann ásamt Lionel Messi ásamt myndbrotum frá síðustu æviárum hans.