Greint var frá niðurstöðunum í Kryddsíld Stöðvar 2. Kristrún Frostadóttir brýst fram á sviðið sem nokkuð óumdeildur leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hún skorar hæst allra flokksleiðtoga á þingi; 42% segja hana hafa staðið sig vel, enginn fær eins góða einkunn; og aðeins 20% segja hana hafa staðið sig illa, enginn sleppur eins vel frá þeim sleggjudómi.
Fast á hæla Kristrúnar fylgir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, 37,5% segja hana hafa staðið sig vel en 35,9% segja hana hafa staðið sig illa. Næstur er Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins en tæp 30 prósent segja hann hafa staðið sig vel en 27,8% illa.
Svo er Inga Sæland á svipuðum slóðum og Sigurður Ingi en eilítið fleirum finnst hún hafa staðið sig illa, 34 prósentum. Næst kemur Þorgerður Katrín; hún stóð sig vel samkvæmt tuttugu og tveimur prósentum fólks.
Gamall flokksbróðir Þorgerðar, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, er samkvæmt 21% fólks sagður hafa staðið sig vel. Um hann eru greinilega deildari meiningar en flesta aðra stjórnmálamenn því að meira en helmingur manna, 53%, segja Bjarna hafa staðið sig illa.
Neðstur á listanum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, sem bíður óumdeilanlegan ósigur í þessari óformlegu vinsældakosningu; 11% segja hann hafa staðið sig vel á kjörtímabilinu en 62,3% illa.
Kristrún skýst upp listann
Maskína spurði þátttakendur í könnuninni þeirrar einföldu spurningar: Hver væri besti forsætisráðherrann að þínu mati?
Katrín Jakobsdóttir sitjandi forsætisráðherra skorar þar hæst með 33,9% en tíðindum sætir að Kristrún Frostadóttir skýst þar upp í annað sætið með 22,9% sem telja að hún væri besti forsætisráðherrann.
Næstur á eftir Kristrúnu kemur Bjarni Benediktsson með 7,6%, Þorgerður Katrín með 6,2% og svo Sigurður Ingi, Sigmundur Davíð og Inga Sæland á svipuðum slóðum. Um 4 prósent velja Pírata og meira en 10% fólk sem ekki er á þessum lista.
Og skákar Bjarna
Fólk var einnig spurt hver yrði besti fjármálaráðherrann að þeirra mati og þar fer einn stjórnmálamaður með afgerandi forystu, nefnilega Kristrún Frostadóttir. 31,3% aðspurðra telja að Kristrún væri besti fjármálaráðherrann.
Á eftir Kristrúnu kemur sitjandi fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson með 23,7% kosningu. Þar á eftir er Þorgerður Katrín með 9%, Katrín Jakobsdóttir og Inga Sæland með um 6%, Sigmundur Davíð með tæp fimm prósent og restin fær enn minni kosningu.