Handbolti

Spenntur að fara loks á stórmót: „Var frekar vongóður í þetta skiptið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson kvaðst vongóður að verða valinn í HM-hópinn og sú ósk hans rættist.
Óðinn Þór Ríkharðsson kvaðst vongóður að verða valinn í HM-hópinn og sú ósk hans rættist. stöð 2 sport

Óðinn Þór Ríkharðsson kveðst spenntur að vera loksins á leið á stórmót með íslenska landsliðinu í handbolta.

Óðinn er í nítján manna hópnum sem Guðmundur Guðmundsson valdi fyrir HM sem hefst 12. janúar. Hornamaðurinn kveðst hafa verið bjartsýnn að verða valinn í HM-hópinn.

„Það kom mér ekki á óvart. Ég var frekar vongóður í þetta skiptið. Það er bara frábær heiður að vera í liðinu,“ sagði Óðinn í samtali við Vísi eftir æfingu landsliðsins í Safamýrinni í kvöld.

Hann kveðst spenntur að fá loks tækifæri með landsliðinu á stærsta sviðinu eftir að hafa nokkrum sinnum verið nálægt því. 

„Þetta er frábær tilfinning. Ég hef vissulega mikið verið á brúninni. En þetta er mjög spennandi og gaman að vera valinn,“ sagði Óðinn.

Hann gekk í raðir Kadetten Schaffhausen í Sviss frá KA fyrir tímabilið. Óðinn gat hins vegar ekki byrjað að spila strax með liðinu þar sem hann ristarbrotnaði. En núna er hann kominn á fullt aftur og hefur spilað undanfarnar vikur.

„Ég er í flottu standi, þetta er gróið og mér líður vel,“ sagði Óðinn. Hann er sáttur með að hafa tekið þetta skref, að fara til Sviss.

„Jú, þetta hefur gengið mjög vel og ég er ánægður með þetta skref. Ég er með íslenskan þjálfara [Aðalstein Eyjólfsson] og þetta er mjög fínt,“ sagði Óðinn að endingu.

Viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×