Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar kallar eftir lest til Keflavíkur í samtali við Fréttablaðið. Tilefnið er lokun Reykjanesbrautar vegna ófærðar þegar umm þrjátíu þúsund manns lendu í vandræðum. Umræðan um lestarsamgöngur frá Reykjavík til Keflavíkur er ekki ný. Árið 2014 gáfu Reykjavíkurborg, Efla, Landsbanki, Isavia og fleiri út skýrslu þar sem hagkvæmni hraðlestar milli miðborgarinnar og Keflavíkur var metin og kom þar fram að lest gæti orðið að veruleika árið 2023.
Strandaði á Hafnarfjarðabæ
Þessi skýrsla er gefin út og hvað gerist svo?
„Við förum í það á þeim tíma að gera samninga um skipulagsmál við þau sveitarfélög sem í hlut eiga. Öll sveitarfélög á lestarleiðinni frá Reykjavík og suður til Reykjanesbæjar þau sömdu við okkur að undanteknum Hafnarfirði þar sem við fengum ekki samning og þá stoppaði málið,“ sagði Runólfur Ágústsson, ritstjóri skýrslunnar.
Hann telur þörf á heildarendurskoðun á samgöngukerfinu á suðvesturhorni landsins. Á þeim tíma sem skýrslan var í smíðum var talið verkefnið myndi kosta um 150 milljarða.
„Lang stærsti kostnaðarliðurinn eru göng frá Straumsvík um Smáralind og Kringlu og niður í Vatnsmýri. Auðvitað miðað við það sem við erum að horfa á í dag þá væru samleiðarfæri við borgarlínu og aðrar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.“
„Það er spurning hvort það væri ekki þess virði að athuga hvort hægt væri að samnýta þessi göng fyrir fluglest sem fer hratt með farþega á milli Keflavíkur og Reykjavíkur og einhvers konar neðanjarðarlest. Að við myndum nýta sömu göngin, svipað eins og í Kaupmannahöfn þar sem sjálfkeyrandi vagnar fara um. Það myndi leysa samgönguvanda borgarinnar í eitt skipti fyrir öll.“
Hann segir að sú framkvæmd myndi kosta um 150 til 200 milljarða.
„Það eru miklir peningar en við skulum athuga í því samhengi að ef við horfum á Fjarðarheiðagöng, sem eiga að kosta 50 milljarða, þá kostar þessi framkvæmd fjórum sinnum meira en þjónar tuttugu til þrjátíu sinnum fleiri og kostnaður per íbúa eða farþega yrði miklu lægri.“
Skýrsluna má lesa hér að neðan.