Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi, segir að ástæða hækkunarinnar nú sé í raun afskaplega einföld.
„Það hafa verið svakalega miklar launahækkanir. Þær voru tvær á síðasta ári, fyrst í byrjun árs og svo hagvaxtaraukinn í vor.
Mjög hátt hlutfall af launakostnaði okkar fellur til á kvöldin og þetta eru háar upphæðir. Og nú er gert ráð fyrir tíu prósenta hækkun á öllum töxtum.
Til viðbótar eru svo miklar hækkanir á innkaupum svo okkur er ekki til setunnar boðið. Því miður,“ segir Magnús.
Þriðjudagstilboð felur í sér að hægt er að koma miðstærð af pítsu með þremur áleggstegundum á 1.200 krónur, ef maður sækir.
Mest krefjandi ár í sögu Domino's
Magnús segir að síðasta ár hafi verið eitt mest krefjandi ár í sögu fyrirtækisins. Aldrei hafi þurft að fást við eins mikinn óstöðugleika í rekstrarumhverfinu og á síðustu mánuðum.
„Við urðum að grípa til aðgerða nú. En það breytir því samt ekki að 1.200 krónur fyrir máltíð er alltaf góður díll, sama hvert litið er. Í langflestum tilvikum erum við hagstæðari kostur. Við erum að bjóða gott verð, en því miður þurfum við að hækka nú.“
Ekki útilokað að Megavikan hækki líka
Magnús segir ljóst að ef þriðjudagstilboðið hefði fylgt verðlagi þá væri það komið í um 1.600 krónur núna og pítsa á Megaviku verið komin í um 2.200 krónur.
En stendur til að hækka verð á Megavikunni, sem nú er í 1.790 krónum?
„Það er ekkert hægt að útiloka það, er klárlega í skoðun, en það væri óvarlegt að fullyrða nokkuð um það,“ segir Magnús. Hann segir að nokkuð sé í næstu Megaviku hjá fyrirtækinu.