Innlent

Níu fluttir með flugi til Reykja­víkur eftir al­var­legt um­ferðar­slys

Samúel Karl Ólason skrifar
Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með þrjá slasaða einstaklinga við Landspítalann upp úr klukkna hálf sex í dag.
Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með þrjá slasaða einstaklinga við Landspítalann upp úr klukkna hálf sex í dag. Vísir/Vilhelm

Harður árekstur varð á Suðurlandi í dag. Fólksbíll og jeppi skullu saman á Suðurlandsvegi við Öldulón og Fagurhólsmýri, suður af Öræfajökli, um klukkan tvö en níu manns voru í bílunum tveimur.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi segir að allir níu verð fluttir með flugi frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur. Þeir eru þó allir með góð lífsmörk.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfesti við fréttastofu á fimmta tímanum að von væri á tveimur þyrlum Gæslunnar til Reykjavíkur á sjötta tímanum. Sex væru fluttir með þyrlunum sem farnar væru í loftið.

Vettvangur slyssins.

Þá myndi flugvél Gæslunnar, sem var við eftirlitsflug og flaug til Hafnar, í framhaldinu ferja þrjá til viðbótar. Afar fátítt er að tvær þyrlur  og flugvél Gæslunnar komi að sama útkallinu að sögn Ásgeirs.

Mikil hálka var á veginum þegar slysið varð og var honum lokað vegna slyssins. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er vegurinn enn lokaður.

Uppfært klukkan 17.45

Fyrri þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Landspítalann um hálf sexleytið með þrjá af hinum slösuðu innanborðs. Von er á síðari þyrlunni innan nokkurra mínútna og flugvélinni í framhaldinu.

Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×