Innlent

Kristján Einar hand­tekinn á Húsa­vík

Eiður Þór Árnason skrifar
Kristján Einar dvaldi í átta mánuði í spænsku fangelsi.
Kristján Einar dvaldi í átta mánuði í spænsku fangelsi. Vísir/Einar

Kristján Einar Sigurbjörnsson var handtekinn af sérsveitarmönnum á Húsavík í kvöld. Þetta staðfestir hann við Vísi og segir að sér hafi verið sleppt eftir að neikvæð niðurstaða fékkst úr áfengis- og vímuefnaprófi.

DV greindi fyrst frá handtökunni. Samkvæmt heimildum miðilsins er Kristján Einar grunaður um aðkomu að alvarlegri líkamsárás á Akureyri um áramótin. Áhrifavaldurinn kveðst vera saklaus af ásökununum. 

„Ég kem af fjöllum með þessa líkamsárás og veit ekkert hvað það varðar eða hvaðan þær sögusagnir koma því það er ekki heil brú á bak við það,“ segir Kristján Einar í samskiptum við Vísi. Fyrr í kvöld greindi hann frá því á Instagram-síðu sinni að hann væri frjáls ferða sinna. „Saklausum mönnum er oftast sleppt. Allavega á endanum.“ 

Nýsloppinn úr spænsku fangelsi

Kristján Einar losnaði úr fangelsi á Malaga á Spáni í lok nóvember eftir tæplega átta mánaða dvöl sem hann hefur lýst sem martraðakenndri.

Hann komst í fréttir eftir að hann var handtekinn í mars síðastliðnum eftir að hafa tekið þátt í „fyllerísslagsmálum, eins og gengur og gerist“, að eigin sögn. Kristján Einar segir að upphaflega hafi staðið til að hann yrði vistaður í fangelsi í sex ár. 

Hann ræddi reynslu sína í ítarlegu viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í lok nóvember. Hann sagði gróft ofbeldi á við morð og nauðganir hafa verið daglegt brauð í fangelsinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×