Handbolti

ÍBV missir spón úr aski sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marija Jovanovic lék með ÍBV í eitt og hálft tímabil.
Marija Jovanovic lék með ÍBV í eitt og hálft tímabil. vísir/hulda margrét

Serbneska handboltakonan Marija Jovanovic hefur leikið sinn síðasta leik fyrir ÍBV.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá ÍBV óskaði Marija eftir því um áramótin að losna undan samningi við ÍBV af persónulegum ástæðum. Við þeirri ósk hennar var orðið.

Marija gekk í raðir ÍBV 2021. Á síðasta tímabili lék hún tuttugu leiki með ÍBV í Olís-deildinni og skoraði í þeim 86 mörk. Í úrslitakeppninni lék hún sex leiki og skoraði átta mörk. Í vetur skoraði Marija sextán mörk í níu deildarleikjum fyrir ÍBV.

Marija hefur leikið með serbneska landsliðinu, meðal annars á heimsmeistaramótinu á Spáni fyrir tveimur árum.

Næsti leikur ÍBV, og sá fyrsti á nýju ári, er gegn toppliði Vals á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×