Sport

Laus við öndunar­grímuna og hitti liðs­fé­laga gegnum Facetime

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hamlin er laus við öndunarbúnað og hitti liðsfélaga sína.
Hamlin er laus við öndunarbúnað og hitti liðsfélaga sína. Ian Johnson/Icon Sportswire via Getty Images

Góðar fregnir bárust af Damar Hamlin, varnarmanni Buffalo Bills, sem fór í hjartastopp í leik liðsins við Cincinnati Bengals í NFL-deildinni í vikunni. Hann er farinn að anda sjálfur og því laus við búnað sem aðstoðaði hann við öndun.

Hamlin komst til meðvitundar í gær eftir að hafa legið í dái frá því á mánudagskvöld, þegar leikur liðanna fór fram. Hann gat þá tjáð sig með skrifum og hans fyrstu viðbrögð voru að spyrja hvort lið hans hefði unnið leikinn.

Leiknum var aflýst eftir atvikið og var staðfest í dag að hann mun ekki vera kláraður.

Hamlin losnaði við búnað sem aðstoðaði hann við öndun í dag og gat því í fyrsta skipti tjáð sig án þess að þurfa til þess spjald og penna.

Hann setti sig fljótlega í samband við liðsfélaga sína og hitti allan hópinn í gegnum fjarskiptaforritið Facetime frá sjúkrahúsinu.

Hvað kom fyrir?

Hamlin hné niður í fyrsta leikhluta í leik Buffalo Bills og Cincinnati Bengals á mánudagskvöld. Hamlin féll í grasið eftir þetta harkalegt samstuð við Tee Higgins, útherja Bengals, en stóð fljótt upp aftur. Hann lagaði hjálminn sinn og virtist ætla að halda áfram leik þegar hann hné niður að nýju.

Greint hefur verið frá því að Hamlin fór þá í hjartastopp.

Sjúkraliðar og læknar hlupu inn á völlinn þegar ljóst var hversu alvarlegt ástand Hamlin var. Þeir reyndu lífgunartilraunir á vellinum í margar mínútur áður en Hamlin var fluttur með sjúkrabíl á Cincinnati Medical Center sjúkrahúsið og lá þungt haldinn á gjörgæslu. Hann virðist nú allur vera að braggast.

NFL

Tengdar fréttir

„Án hjartahnoðs væri ég dauður“

Leikarinn geðþekki Bob Odenkirk, sem fer um þessar mundir á kostum sem klækjalögmaðurinn Saul Goodman í þáttunum Better Call Saul, var nær dauða en lífi við tökur á þáttunum á síðasta ári. Hann segist eiga hjartahnoði líf sitt að launa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×