Handbolti

Norðmenn léku sér að Bandaríkjamönnum og Portúgal hafði betur gegn Brasilíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu í handbolta fara fullir sjálfstrausts inn í heimsmeistaramótið.
Sander Sagosen og félagar í norska landsliðinu í handbolta fara fullir sjálfstrausts inn í heimsmeistaramótið. Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Norðmenn tryggðu sér sigur í Gulldeildinni, æfingamóti fyrir heimsmeistaramótið í handbolta, er liðið vann öruggan 17 marka sigur gegn Bandaríkjamönnum fyrr í dag, 43-26. Þá tryggðu Portúgalar sér annað sætið með þriggja marka sigri gegn Brasilíu, lokatölur í þeim leik 31-28.

Liðin eru að leggja lokahönd á undirbúning sinn fyrir HM í handbolta og var Gulldeildin liður í því. Norðmenn unnu alla þrjá leiki sína afar sannfærandi og enda með fullt hús stiga í efst sæti og markatöluna 111-76.

Portúgalska liðið, sem mun leika með okkur Íslendingum í D-riðli á HM, enda mótið í öðru sæti með fjögur stig eftir sigurinn gegn Brasilíu í dag. Brassar koma svo þar á eftir með tvö stig, en Bandaríkjamenn reka lestina án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×