Körfubolti

Gott gengi Nets í hættu: Durant með tognað lið­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin Durant mun ekki körfubolta spila næstu vikurnar.
Kevin Durant mun ekki körfubolta spila næstu vikurnar. AP Photo/Matt Kelley

Kevin Durant, stórstjarna Brooklyn Nets í NBA deildinni, er með tognað liðband í hægra hné og verður frá næstu vikurnar. Þetta setur gott gengi liðsins í hættu en það er sem stendur í 2. sæti Austurdeildar.

Durant, sem er einn af betri mönnum deildarinnar, byrjaði tímabilið með látum þegar hann sagðist vilja yfirgefa Nets. Á sama tíma kom Kyrie Irving sér enn og aftur í vandræði og virtist sem um sannkallað hryllingstímabil yrði að ræða.

Það breyttist eftir að Steve Nash var látinn fara og allt í einu fór Nets að vinna leiki. Liðið hefur í raun verið sjóðandi heitt undanfarnar vikur og unnið 18 af síðustu 20 leikjum sínum. Durant meiddist hins vegar í eins stigs sigri á Miami Heat á aðfaranótt mánudags.

Jimmy Butler, leikmaður Heat, datt aftur fyrir sig á hné Durant sem lá eftir í dágóða stund. Durant reyndi að halda áfram en var á endanum tekinn af velli. Nú er ljóst að hann er með skaddað liðband.

„Ég var þarna rétt hjá þessu og svona atvik eru óhugnanleg,“ sagði Kyrie eftir leik.

Í yfirlýsingu Nets segir að meiðslin verði skoðuð að nýju eftir tvær vikur en talið er að það taki leikmenn um 5-7 vikur að jafna sig eftir að hafa tognað á liðbandi.

Durant hefur glímt við töluvert af meiðslum síðan hann samdi við Nets en hann var að jafna sig eftir að slíta hásin þegar hann samdi við félagið. Hann lék ekkert á sínu fyrsta tímabili og var svo frá í rúmlega einn og hálfan mánuð á síðustu leiktíð vegna meiðsla á hné.

Durant er með 30,0 stig, 6,8 fráköst og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×