Enski boltinn

Stóðu ofan á bíl til að horfa á leikinn gegn Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kátir stuðningsmenn Oxford United dóu ekki ráðalausir og fundu leið til að fylgjast með bikarleiknum gegn Arsenal.
Kátir stuðningsmenn Oxford United dóu ekki ráðalausir og fundu leið til að fylgjast með bikarleiknum gegn Arsenal. getty/Catherine Ivill

Nokkrir stuðningsmenn C-deildarliðsins Oxford United fundu sniðuga leið til að horfa á leik sinna manna gegn Arsenal, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, í 3. umferð bikarkeppninnar í gær.

Uppselt var á leikinn á Kassam leikvanginum í Oxford. Nokkrir stuðningsmenn Oxford dóu hins vegar ekki ráðalausir og náðu samt að sjá leikinn.

Fyrir aftan annað markið eru nefnilega bílastæði og stuðningsmennirnir sniðugu brugðu á það ráð að standa ofan á bíl til að fylgjast með leiknum. 

Þetta uppátæki þeirra vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum og þótti sýna rómantíkina við 3. umferð bikarkeppninnar.

Engin stúka er fyrir aftan annað markið á Kassam leikvanginum.getty/Richard Heathcote

Það var þó lítil rómantík inni á vellinum því Arsenal vann leikinn með þremur mörkum gegn engu. Eddie Nketiah skoraði tvö mörk fyrir Skytturnar og Mohamed Elneny eitt.

Arsenal mætir Englandsmeisturum Manchester City í 4. umferð bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×