Enski boltinn

Segir að fólki vökni um augun þegar það kemst að því af hverju Tuchel var rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel með Meistaradeildarbikarinn sem Chelsea vann 2021.
Thomas Tuchel með Meistaradeildarbikarinn sem Chelsea vann 2021. getty/Visionhaus

Fólki mun vökna um augun þegar það kemst að því af hverju Todd Boehly, eigandi Chelsea, rak Thomas Tuchel úr starfi knattspyrnustjóra liðsins.

Þetta segir Simon Jordan, álitsgjafi á talkSPORT. Hann segir að hann hefði gert það sama og Boehly og rekið Tuchel.

Í byrjun september var Þjóðverjinn látinn fara frá Chelsea eftir tap fyrir Dinamo Zagreb í Meistaradeild Evrópu. Graham Potter var ráðinn í staðinn.

Jordan segir að ástæðurnar fyrir því að Tuchel var rekinn séu fleiri en virðast við fyrstu sýn.

„Það gerðist margt fleira bak við tjöldin varðandi Tuchel sem fengi fólk til að vökna um augun. Þetta snerist ekki bara um tapið fyrir Dinamo Zagreb. Þetta voru margar aðrar ástæður,“ sagði Jordan. „Þetta opnaði augu mín og ég hefði gert það nákvæmlega sama.“

Illa hefur gengið hjá Chelsea að undanförnu og stuðningsmenn liðsins sungu nöfn Tuchels og Romans Abramovich, fyrrverandi eiganda Chelsea, á meðan leiknum gegn Manchester City í ensku bikarkeppninni í fyrradag stóð. Chelsea tapaði leiknum, 4-0.

Tuchel stýrði Chelsea í eitt og hálft ár. Undir hans stjórn vann liðið Meistaradeild Evrópu vorið 2021.


Tengdar fréttir

Guardiola hvetur Chelsea til að halda tryggð við Potter

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hvetur eigendur Chelsea til að halda tryggð við þjálfara liðsins, Graham Potter, þrátt fyrir slæmt gengi liðsins á tímabilinu. Spánverjinn segir að það sé eðlilegt að þjálfarar þurfi tíma.

Englandsmeistararnir fóru illa með Chelsea

Englandsmeistarar Manchester City unnu afar öruggan 4-0 sigur er liðið tók á móti Chelsea í stórleik þriðju umferðar FA-bikarsins. Þetta er í annað sinn á fjórum dögum sem City hefur betur gegn Chelsea, en liðin mættust einnig í deildinni fyrr í vikunni.

„Ég hef fullan stuðning“

Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea, blés á þær sögusagnir að hann sé á mörkum þess að missa starfið sitt hjá Chelsea og segist þess í stað hafa fullan stuðning og þolinmæði hjá eigendum Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×