Erlent

Kallar eftir stigmögnun af hálfu bandamanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Shirreff var nokkuð afdráttarlaus í orðum sínum.
Shirreff var nokkuð afdráttarlaus í orðum sínum. Getty

Sir Richard Shirreff, fyrrverandi hershöfðingi hjá Atlantshafsbandalaginu, segir að Bretar hefðu átt að senda Úkraínumönnum skriðdreka fyrir mörgum mánuðum. Bretar íhuga nú að senda Challenger-2 skriðdreka til Úkraínu.

Shirreff, sem var um tíma næstæðsti yfirmaður Evrópuherstjórnar Nató, sagði í samtali við útvarpsstöðina LBC í morgun að hann teldi rétt að bandamenn reyndu á hótanir Rússa um afdráttarlausar aðgerðir ef bandamenn gerðu eitthvað til að stigmagna átökin.

„Það eina sem Rússar virða er styrkur. Og það verður alltaf þannig með Rússland. Sýndu meiri styrk en Rússar búa yfir og þá bakka þeir,“ sagði Shirreff.

Hann sagði að í stað þess að hafa áhyggjur af stigmögnun ættu bandamenn þvert á móti að grípa til stigmögnunar; útvega Úkraínumönnum meiri vopn. Því meiri aðstoð sem þeir fengju og því hraðar, því fyrr myndi stríðinu ljúka.

Bandaríkjamenn eru sagðir velta því fyrir sér að senda vopnaðar brynvarðar bifreiðar, Stryker, til Úkraínu. Frá þessu greinir Politico, sem segir tíðinda að vænta í næstu viku.

Nikolai Patrushev, sem situr í öryggisráði Rússlands og er náin bandamaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sagði í samtali við dagblaðið Argumenti i Fakti í morgun að átökin í Úkraínu væru ekki á milli Moskvu og Kænugarðs, heldur á milli Rússlands og Nató.

Það væri ætlum Vesturlanda að sundra Rússlandi.

Varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu sagði morgun að Rússar myndu halda áfram þróun kjarnorkuvopna til að tryggja fullveldi landsins. Þá myndu þeir einblína á að þróa flugher sinn gegn nútíma loftvarnakerfum og vinna að þróun ómannaðra loftfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×