Það er í raun ótrúlega stutt síðan félagið kom inn á markaðinn. Það var í byrjun sumars árið 2021 sem Play fór í fyrsta áætlunarflugið. Núna er félagið að sigla inn í þriðja rekstrarárið. Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um vöxt Play og rætt við Birgi Jónsson forstjóra.
„Þetta hefur bara vaxið samkvæmt áætlunum. Við byrjuðum á þremur vélum. Vorum með sex í fyrra og verðum með tíu á þessu ári. Fljúgum til hátt í fjörutíu áfangastaða núna 2023. Þannig að þetta verður ansi skemmtilegt ár,“ segir Birgir.

Nýjasta kortið yfir leiðakerfi Play sýnir gróskuna en Birgir segir þrettán nýja áfangastaði bætast við ár. Nýir í sumar eru Toronto, Álaborg, Árósar, Billund, Düsseldorf, Varsjá, Stokkhólmur, Hamborg, Aþena og Porto. Þá hafa Madrid, Barcelona og Alicante bæst við sem heilsárstaðir. Og Birgir gefur til kynna að fleiri áfangastaðir eigi eftir að bætast á kortið á árinu.
„Já, við erum með nokkra ása uppi í erminni og munum bara spila þeim út þegar tækifæri gefst á markaðnum.“
Hann segir að vel hafi gengið að ráða og þjálfa upp nýjar áhafnir en starfsmannafjöldi Play hefur snaraukist.
„Það voru held ég 45 manns sem unnu hérna fyrir tæpum tveimur árum og við verðum 550 á þessu ári. Þannig að heimilið er að stækka ansi mikið.“

Félagið notast eingöngu við Airbus-þotur og verður með sex A320 og fjórar lengri A321, sem Birgir segir yngsta flugflota Evrópu. Hann segir að með þessum fjölda sé félagið komið í ákveðið jafnvægi.
„Við hugsum þetta auðvitað bara þannig að ef við sjáum tækifæri, þá förum við á eftir þeim. En ég á svo sem alveg von á því að félagið vaxi. En við ætlum að taka róleg og yfirveguð skref.“
Hann segir þróun olíuverðs helstu ógnina en er engu að síður bjartsýnn.
„Flugfélög almennt séð hafa verið í ákveðnum mótvindi síðustu misseri og síðasta ár var erfitt með olíuhækkanir og annað.
En við erum ekki að sjá annað en að Ísland til dæmis sem áfangastaður verði mjög vinsæll á þessu ári. Ég held að íslensk ferðaþjónusta sé að fara inn í eitt af sínum bestu árum bara frá upphafi. Þannig að við sjáum bara mikla eftirspurn og mikla grósku.
En að sjálfsögðu þarf að fara varlega og renna með öruggum hætti í hylinn,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: