Handbolti

Spáir Íslandi 6. sæti og að Ómar Ingi verði markakóngur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon verður markakóngur annars stórmótsins í röð samkvæmt Rasmus Boysen.
Ómar Ingi Magnússon verður markakóngur annars stórmótsins í röð samkvæmt Rasmus Boysen. hsí

Ef spá danska handboltasérfræðingsins Rasmusar Boysen rætist endar íslenska karlalandsliðið í 6. sæti á HM 2023.

Heimsmeistaramótið í Svíþjóð og Póllandi hefst í dag með leik Ólympíumeistara Frakka og Pólverja. Fyrsti leikur Íslands er gegn Portúgal annað kvöld.

Mikil spenna er fyrir mótinu og væntingarnar til íslenska landsliðsins umtalsverðar. Rasmus spáir Strákunum okkar góðu gengi á mótinu en kannski ekki eins góðu og margir vonast eftir.

Rasmus spáir íslenska liðinu nefnilega 6. sæti á HM. Hann spáir því að Svíar verði heimsmeistarar eftir sigur á Dönum í úrslitaleik. Frakkar taka bronsið ef spá hans rætist, Frakkar enda í 4. sæti, Serbar í því fimmta og Íslendingar í því sjötta.

Rasmus spáir því að Ómar Ingi Magnússon verði markakóngur HM og endurtaki þar með leikinn frá síðasta EM þar sem hann varð langmarkahæstur.

Þýsku strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar enda í 9. sæti samkvæmt spá Rasmusar og Barein, sem Aron Kristjánsson stýrir, í því 26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×