Fótbolti

Infantino boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Infantino er til rannsóknar hjá svissneskum lögregluyfirvöldum.
Infantino er til rannsóknar hjá svissneskum lögregluyfirvöldum. AP Photo

Gianni Infantino, forseti FIFA, var yfirheyrður af lögregluyfirvöldum í Sviss öðru sinni í vikunni vegna meintra glæpa hans. Hann á að hafa hvatt til misbeitingar valds og hindrað refsiaðgerðir lögreglu- og dómsvaldsins.

Rannsókn hófst í júlí 2020 en Infantino fór upprunalega í yfirheyrslu í apríl í fyrra vegna málsins. Hann var þá yfirheyrður af þeim Ulrich Weder og Hans Maurer, sem einnig yfirheyrðu hann í Zurich í vikunni - en FIFA á höfuðstöðvar þar í borg.

Maurer staðfesti við svissneska fjölmiðla að fundur þeirra hefði farið fram. Infantino var þá nýkominn frá Brasilíu hvar hann var við útför knattspyrnugoðsagnarinnar Pelé.

Rannsókn svissneskra saksóknara snýr að þremur leynifundum sem áttu sér stað árin 2016 og 2017, milli Infantino og fyrrum ríkissaksóknara Sviss, Michael Lauber, sem sinnti þeirri stöðu á þeim tíma. Fundirnir sneru að rannsókn svissneskra yfirvalda um vafasemi starfshætti innan FIFA árin 2015 til 2019.

Lauber sætir einnig rannsókn vegna málsins en hann sagði af sér sem ríkissaksóknari vegna þess árið 2020.

Infantino er sakaður um „hvatningu til misbeitingar valds, brota gegn opinberri þagnarskyldu og hindrunar refsiaðgerða“ samkvæmt svissneskum fjölmiðlum.

Infantino er sagður á fundunum hafa sóst eftir upplýsingum um hvar rannsókn svissneskra yfirvalda á fyrrum stjórnendum innan sambandsins væri stödd, með það fyrir augum að hafa áhrif á rannsóknina.

Meðal þess sem var til rannsóknar sem fundir Infantino og Lauber snertu á voru meintar mútugreiðslur fyrrum forsetans Sepp Blatter til Michel Platini, fyrrum forseta UEFA. Platini átti að taka við af Blatter sem forseti Alþjóðasambandsins. Svissnesk yfirvöld kærðu þá báða vegna greiðslunnar í fyrra en þeir voru sýknaðir fyrir dómstólum í júlí.

Því máli er þó ekki lokið vegna áfrýjunar saksóknara á dómnum.

Eftir að rannsókn hófst árið 2020 flutti Infantino búferlum til Katar þar sem hann býr nú með fjölskyldu sinni. Í Katar fór fram umdeilt heimsmeistaramót karla í fótbolta í desember síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Blatter gagnrýnir Infantino harðlega

Sepp Blatter hefur gagnrýnt eftirmann sinn í embætti forseta FIFA fyrir hugmyndir um að breyta keppnum á vegum sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×