Handbolti

Ómar Ingi lætur pressuna ekki trufla sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ómar Ingi yfirvegaður í Kristianstad í gær.
Ómar Ingi yfirvegaður í Kristianstad í gær. vísir/vilhelm

Það er mikil pressa á hinum frábæra Ómari Inga Magnússyni á HM. Hann hefur verið óstöðvandi í langan tíma og honum er ætlað að leiða liðið í draumalandið.

„Tilfinningin er góð og hér verður hörkustemning. Það er góður andi í liðinu og við erum búnir að æfa vel,“ segir Ómar Ingi pollrólegur að vanda.

Væntingar eru miklar til liðsins og strákarnir setja markið einnig hátt.

„Fyrst og fremst ætlum við að byrja á því að spila góðan handbolta. Við erum nánast á heimavelli hérna og það verður geðveikt. Það er mikil spenna og best að fara að byrja þetta.“

Klippa: Ómar Ingi klár í báta fyrir HM

Ómar Ingi hefur verið einn besti handboltamaður heims, ef ekki sá besti, undanfarið ár. Hann hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins tvö ár í röð og fólk treystir á hans framlag í Svíþjóð. Finnur hann fyrir pressunni?

„Já, já. Eins og venjulega samt. Ég er með eigin væntingar og pæli meira í því. Það er að spila vel í hverjum leik og sjá hvað það gefur okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×