Innlent

Grunsamlegur náungi reyndist eftirlýstur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla framkvæmdi nokkrar handtökur í gærkvöldi og nótt.
Lögregla framkvæmdi nokkrar handtökur í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo einstaklinga í Hlíðahverfi í Reykjavík í gærkvöldi í tengslum við líkamsárás og fíkniefnamisferli. Þá voru tveir handteknir í Vogahverfinu í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum, eftir að bifreið þeirra valt.

Engin slys urðu á fólki.

Í tilkynningu frá lögreglu um verkefni næturinnar segir að töluvert hafi verið um útköll í miðborginni vegna hávaða og ölvunar en ekkert alvarlegt.

Annars staðar í borginni var maður handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli og peningaþvætti en hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku. Þá var annar handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í Seljahverfi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir og í ljós kom að umræddur einstaklingur var eftirlýstur fyrir að mæta ekki fyrir dómara. Var hann vistaður í fangageymslu og verður færður fyrir dómara á morgun.

Í póstnúmerinu 112 var tilkynnt um þjófnað í verslun en málið afgreitt á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×