Neyðaráætlun í málaflokki heimilislausa hefur verið virkjuð, en slík áætlun er jafnan virkjuð í slæmu veðri eða miklu frosti.
Markmið neyðaráætlunarinnar er að tryggja að upplýsingar um slæmt veður og breyttan opnunartíma berist gestum neyðarskýla, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Stjórnendum neyðarúrræða, bráðamóttöku Landspítalans, lögreglu, Rauða krossinum og öðrum sem almennt koma að máli er einnig gert viðvart.
„Vel er fylgst með veðurspám og tilkynningum frá Almannavörnum allan veturinn og brugðist við í hvert sinn sem þörf er á,“ segir enn fremur í tilkynningunni.