Innlent

Munu ekki fara fram á gæslu­varð­hald yfir skot­vopna­mönnunum

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
 Ásmundur segir að aðgerðir lögreglu hafi ekki verið umfangsmiklar og talið að um minniháttar mál hafi verið að ræða.
 Ásmundur segir að aðgerðir lögreglu hafi ekki verið umfangsmiklar og talið að um minniháttar mál hafi verið að ræða. Vísir/Vilhelm

Þrír einstaklingar voru handteknir á hóteli í miðborginni í gærkvöldi en þeir voru með skotvopn, skotfæri og fíkniefni í fórum sínum. Lögregla naut aðstoðar sérsveitar við aðgerðirnar en málið er ekki þess eðlis að farið verði fram á gæsluvarðhald.

Vísir greindi frá málinu í morgun.

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við Hádegisfréttir Bylgjunnar að lögreglan hafi fengið tilkynningu um málið á áttunda tímanum í gærkvöldi, um að mögulega væru aðilar á hóteli í miðborginni sem að væru með skotvopn undir höndum. Lögreglan fór og kannaði stöðuna og naut liðsinnis sérsveitarinnar í þessum aðgerðum.

Aðilarnir reyndust auk skotvopna vera með skotfæri og fíkniefni í fórum sínum. Þeir voru vistaðir í fangaklefa fyrir rannsókn málsins en málið er ekki þess eðlis að farið verði fram á gæsluvarðhald.

 Að sögn Ásmundar verða teknar skýrslur af aðilunum og þeir líklega lausir í kjölfarið á því. Aðgerðir lögreglu voru að hans sögn ekki umfangsmiklar og talið er að um minniháttar mál hafi verið að ræða.

Að öðru leyti komu engin stórmál á borð lögreglu í gærkvöldi og í nótt, þó eitthvað væri um innbrot, eignaspjöll, og akstur undir áhrifum, þar sem tveir voru handteknir. 

Þá voru nokkrir staðir í miðbænum kærðir fyrir að ýmist vera ekki með dyraverði eða dyraverð i sem voru ekki með réttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×