Handbolti

Neitaði að svara spurningu blaðamanns Vísis um heyrnartólin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fidalgo vildi ekki svara spurningum um heyrarntólin.
Fidalgo vildi ekki svara spurningum um heyrarntólin. Vísir/Vilhelm

Paulo Fidalgo, aðstoðarþjálfari Portúgal, neitaði að svara spurningum Stefáns Árna Pálsssonar, blaðamanns Vísis, um heyrnartólin margfrægu sem hann var með í leiknum gegn Íslandi. 

Fidalgo stýrði Portúgal á þriðjudagskvöldið og var aðalþjálfari liðsins Paulo Pereira upp í stúku þar sem hann er í leikbanni. Það sem vakti sérstaka athygli var að aðalþjálfarinn var einmitt einnig með heyrnartól og virtist sem hann væri að koma skilaboðum á bekkinn sem er stranglega bannað.

Eftir leik útskýrði hann sig á þann veg að hann væri með heyrnarskaða og þyrfti því að vera með heyrnartólin.

Fidalgo stýrði Portúgal sömuleiðis í leik liðsins gegn Suður-Kóreu í dag. Þá voru heyrnartólin hvergi sjáanleg og óljóst hvort honum hafi verið bannað að vera með heyrnartólin eða einfaldlega náð ótrúlegum bata á skömmum tíma.

Stefán Árni Pálsson, blaðamaður Vísis, er í Kristianstad og var mættur á blaðamannafund í kjölfar leiks Portúgal og Suður-Kóreu. Hann spurði Fidalgo út í heyrnartólin en sá portúgalski vildi ekkert svara.

„Ég er aðeins hér til að svara spurningum um leikinn,“ sagði Fidalgo og neitaði að svara spurningu Stefáns Árna.

Það er því ljóst að málið er allt hið óþægilegasta fyrir Portúgali en aðalþjálfari liðsins, Paulo Pereira, verður á bekknum í næsta leik eftir að hafa tekið út leikbann í fyrstu tveimur leikjunum á mótinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×