Handbolti

„Búinn að bíða eftir þessu til að sýna hvað ég get“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli kom inn í mark Íslands og stóð vaktina með prýði.
Viktor Gísli kom inn í mark Íslands og stóð vaktina með prýði. Vísir/Vilhelm

„Ég er ekki alveg viss hversu margir þeir [vörðu boltarnir] voru en þetta var bara gaman,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, maður leiksins í 13 marka sigri Íslands á Suður-Kóreu í lokaleik riðlakeppninnar á HM í handbolta.

Viktor Gísli lék allan leikinn í markinu og var frábær. Hann varði 26 skot, eða 51 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Þetta var bara geggjað. Svolítið skrítið lið en geggjaður stuðningur og gaman að fá eiga þetta augnablik í lokin með stuðningsfólkinu,“ sagði markvörðurinn um leik kvöldsins.

Viktor Gísli tók undir að ekki hefðu nú öll skot Suður-Kóreumanna verið erfið að eiga við: „Vissulega ekki, en það komu skrítin skot inn á milli. Skrítið tempó og maður er ekki alveg vanur þessum skotum en góð upplifun.“

„Búinn að bíða eftir þessu til að sýna hvað ég get. Gott að fá heilan leik til að komast almennilega í gang eftir meiðslin.“

Hvort meiðslin væru enn að plaga hann: „Ekki lengur, aðallega í hausnum kannski. Maður treystir þessu kannski ekki alveg 100 prósent en ég finn ekki fyrir neinu og hlífin er að halda frábærlega.“

Að lokum var Viktor Gísli spurður hvort það hefði verið erfitt að gíra sig upp í þennan leik.

„Alls ekki. Gummi [Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari] gerði mjög vel að peppa okkur alla í þetta. Aron [Pálmarsson, fyrirliði] líka. Allir tilbúnir frá fyrstu mínútu, það var mjög mikilvægt að byrja báða hálfleika af fullum krafti. Þegar við gerum það ekki þá verður þetta erfitt. Byrjuðum vel, náðum tökum á leiknum og kláruðum þetta.“

Klippa: Viktor Gísli eftir sigurinn á Suður-Kóreu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×