Viðskipti innlent

Ásta Dís tekur sæti Helgu í stjórn Sam­herja

Atli Ísleifsson skrifar
Ásta Dís Óladóttir.
Ásta Dís Óladóttir. Samherji

Ásta Dís Óladóttir hefur tekið sæti í stjórn Samherja hf. í stað Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur.

Í tilkynningu frá Samherja segir að Ásta Dís hafi ekki áður setið í stjórn félagsins. 

„Hún er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, með BA gráðu í félags- og atvinnulífsfræði, meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School. Ásta Dís hefur á undanförnum árum komið að uppbyggingu náms í sjávarútvegi í Háskóla Íslands og kennt meðal annars námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi. Þá er hún annar höfundur bókarinnar Fisheries and aquaculture, the food security of the future sem Elsevier gaf út 2021.

Helga Steinunn Guðmundsdóttir.Samherji

Ásta Dís hefur umfangsmikla stjórnunarreynslu og hefur setið í fjölmörgum stjórnum, nefndum og ráðum. Í dag er hún stjórnarformaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og MBA náms, Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála og Félags háskólakvenna. Þá er hún formaður Jafnvægisvogarráðs og Vísindasjóðs Háskólans á Akureyri,“ segir í tilkyningunni. 

Helga Steinunn tók sæti í stjórn Samherja árið 2013. Hún var stjórnarformaður Samherjasjóðsins frá stofnun sjóðsins.

Stjórn Samherja er þá þannig skipuð: Eiríkur S. Jóhannsson; Dagný Linda Kristjánsdóttir; Óskar Magnússon; Ásta Dís Óladóttir og Kristján Vilhelmsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×