Erlent

Klám­leikarinn Ron Jeremy með tauga­hrörnun og getur ekki setið á­ætluð réttar­höld

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Jeremy í réttarsal í júní.
Jeremy í réttarsal í júní. David McNew/Getty

Klámleikarinn Ron Jeremy, sem er 69 ára að aldri, hefur verið metinn óhæfur andlega til þess að gangast undir réttarhöld. Hann er sagður með taugahrörnun sem hafi valdið vitrænni hnignun.

Þetta kemur fram í umfjöllun Reuters en Jeremy hefur setið í fangelsi frá árinu 2020 þegar hann var ákærður fyrir meira en þrjá tugi kynferðisbrota og þar af 12 nauðganir.

Brotin eiga að hafa átt sér stað á 23 ára tímabili og gegn 23 konum sem voru á aldrinum 15 til 54 ára þegar meint brot áttu sér stað.

Nú hefur komið í ljós að Jeremy er ekki talinn hæfur andlega til þess að gangast undir réttarhöld. Þá er greint frá því að Jeremy hafi ekki þekkt verjanda sinn í sjón þegar hann heimsótti hann í fangelsið fyrir réttarhöld.

Ákveðið verður þann 7. Febrúar næstkomandi hvort koma eigi Jeremy fyrir á sjúkrahúsi vegna veikindanna.

Á ferli sínum sem spannaði marga áratugi lék Jeremy í meira en tvö þúsund klámmyndum. Þá öðlaðist hann einnig stimpilinn „Íslandsvinur“ árið 2002 þegar hann mætti til landsins vegna kynningar á heimildarmynd sem var sýnd í Háskólabíói um líf hans og störf.

Á meðan heimsókninni stóð fór Jeremy meðal annars í heimsókn í framhaldsskóla þar sem hann sat fyrir svörum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×