Handbolti

„Hann er bara mjög stressaður þegar ég er að taka þessi skot“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elliði Snær er að slá í gegn hjá íslensku þjóðinni á HM.
Elliði Snær er að slá í gegn hjá íslensku þjóðinni á HM. Vísir/vilhelm

„Jú, hann er bara mjög stressaður þegar ég er að taka þessi skot,“ segir Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handbolta, um frægu miðju skotin hans þegar línumaðurinn skorar í autt markið.

 Sá sem er stressaður, er þjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson. Elliði hefur vakið mikla athygli fyrir þessi skot á mótinu og hefur ekkert lið skorað fleiri mörk í autt markið en Ísland á HM.

„Ef myndavélin færi á hann þegar skotið er á leiðinni þá myndu allir sjá stressið í honum en svo lengi sem þetta fer inn, þá er þetta gott. Þegar allir byrjuðu að spila 7 á 6 þá gekk mér ekkert rosalega vel að skjóta frá miðju og á ákvað að breyta aðeins til og þá bjó ég þetta til og það hefur gengið mun betur.“

Elliði segist alveg finna fyrir athyglinni heima og hafa bæst við nokkrir Instagram-fylgjendur.

„Eitthvað aðeins, en ekkert eins og hjá Viktori Gísla á síðasta móti. Við köllum hann litla Rúrik því hann fékk svona tíu þúsund fylgjendur á tíu mínútum.“

Elliði hefur beðið spenntur eftir leiknum gegn Svíum í kvöld.

„Eftir Ungverjaleikinn erum við bara búnir að bíða spenntir eftir þessum leik. Þetta eru í rauninni bara 16-liða úrslitin okkar og við þurfum bara að vinna Svíana.“

Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.

Klippa: Viðtal við Elliða Snæ fyrir leikinn gegn Svíum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×