Erlent

Ís­lensk kona al­var­lega særð eftir hnífs­stungu­á­rás í Noregi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan í Stafangri fer með rannsókn málsins.
Lögreglan í Stafangri fer með rannsókn málsins. Yui Mok/PA Images via Getty Images

Íslenskur karlmaður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn í Rogalandi í Noregi, grunaður um að hafa stungið fyrrverandi eiginkonu sína, sem einnig er íslensk, fyrir utan McDonalds-veitingastað í gær.

Greint er frá málinu í öllum helstu fjölmiðlum Noregs, þó þjóðerni hins meinta árásarmanns og fórnarlambsins sé ekki tilgreint. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um Íslendinga að ræða sem búsettir hafa verið í Noregi undanfarin ár.

RÚV greinir frá því í morgun að maðurinn hafi játað á sig verknaðinn. Er hann grunaður um tilraun til manndráps samkvæmt norskum fjölmiðlum. Árásinni er lýst þannig að maðurinn hafi stungið konuna ítrekað fyrir utan McDonalds-veitingastað í bænum Norheim, í suðvestur-Noregi.

Konan var flutt á sjúkrahús með alvarlega áverka eftir árásina. Í norskum fréttum hefur verið greint frá því að hinn meinti gerandi og fórnarlambið hafi verið hjón, en skilið nýverið. Þá hafi konan fengið nálgunarbann á manninn síðastliðið haust.

Maðurinn var handtekinn fyrir utan heimili hans skömmu eftir árásina. Fjöldi vitna var að árásinni auk þess sem að lögregla lagði hald á hníf á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×