Erlent

Sam­þ­ykkj­­a ekki enn skrið­dr­ek­­a­­send­­ing­­ar til Úkra­­ín­­u

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Pistorius, nýr varnarmálaráðherra Þýskalands, í Ramstein í dag.
Boris Pistorius, nýr varnarmálaráðherra Þýskalands, í Ramstein í dag. AP/Michael Probst

Boris Pistorius, nýr varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði við blaðamenn í Ramstein í Þýskalandi í dag að engin ákvörðun hefði verið tekin um það að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu. Hann sagði þó að ráðuneyti hans myndi fara yfir birgðastöðu Þjóðverja og kanna hve marga skriðdreka hægt væri að senda og hve fljótt, verði slík ákvörðun tekin á næstunni.

Pistorius sagði að ekki væri búið að ná samkomulagi um málið en Þjóðverjar hafa verið undir miklum þrýstingi varðandi skriðdrekasendingar sem Úkraínumenn segja mikilvægar fyrir komandi átök með vorinu. Bretar ætla að senda fjórtán Challenger 2 skriðdreka til Úkraínu og yfirvöld Í Frakklandi eru sögð íhuga að senda Leclerc skriðdreka sína einnig.

Hingað til hafa Þjóðverjar ekki viljað senda skriðdreka til Úkraínu nema Bandaríkjamenn geri það einnig.

Leopard skriðdrekarnir þykja þó hentugri fyrir Úkraínumenn en Abrams skriðdrekar Bandaríkjamanna, þar sem þeir síðarnefndu ganga fyrir flugvélaeldsneyti, þurfa meira viðhald og umfangsmeira birgðanet en Leopard 2 skriðdrekar, sem ganga fyrir hefðbundinni dísilolíu.

Um tvö þúsund Leopard 2 skriðdrekar eru taldir í notkun í þrettán ríkjum Evrópu. Meðal þeirra ríkja þar sem ráðamenn hafa sagst tilbúnir til að senda skriðdreka til Úkraínu eru Pólland, Finnland, Tékkland og Slóvakía.

Pólverjar hafa gengið hvað harðast fram í að fá að senda skriðdreka til Úkraínu en Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði í gær að til greina kæmi að gera það án leyfis frá Þjóðverjum.

Sjá einnig: Rússar undirbúa sig fyrir langvarandi stríð

Pistorius sagði að Pólverjar gætu byrjað að þjálfa úkraínska hermenn á Leopard skriðdrekana, vilji þeir gera það. Hann sagði þó að Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, þyrfti að taka ákvörðun varðandi beiðnir annarra ríkja um að fá að senda skriðdreka.

Eins og bent er á í frétt Politico hafa þýskir embættismenn hlaupið eins og kettir í kringum heitan graut varðandi þessa ákvörðun og hafa skilaboðin frá Berlín á köflum verið þversagnarkennd.

Þó öll spjót beinist að Þjóðverjum vildi Pistorius þó ekki meina að þeir væru einangraðir í þessu máli. Hann hélt því fram að Þýskaland stæði ekki í vegi annarra ríkja heldur væru allir að velta vöngum yfir kostum og göllum þess að útvega Úkraínumönnum skriðdreka.

Þá hét Pistorius því að Þýskaland myndi ekki láta af stuðningi sínum við Úkraínu, sem hefur verið umfangsmikill hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×