Lífið

„Allt í einu koma menn inn í búningsherbergið með byssur“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Í nýjasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar var rætt við Björgvin Halldórsson.
Í nýjasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar var rætt við Björgvin Halldórsson. Stöð 2

„Fólk heldur að ég sé með nefið upp í loftið og með tóman kjaft alltaf. Ég veit ekki hvað það er sko, en málið er að ég er kaldhæðinn,“ segir tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson.

Björgvin er einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar. Þá er hann jafnframt einn af fáum íslenskum tónlistarmönnum sem getur státað sig af því að hafa hljóðritað í kringum níu hundruð lög. Björgvin hefur marga fjöruna sopið á sinni ævi og fór yfir tónlistarferilinn í nýjasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar.

Fékk skemmtileg tækifæri í kjölfar Eurovision

Í þættinum fer Björgvin um víðan völl og rifjar meðal annars upp Eurovision ævintýrið árið 1995. Þá fór hann til Dublin og flutti lagið Núna fyrir hönd Íslands.

„Það jafnast ekkert á við það. Þetta er allt live. Þú gerir þetta bara einu sinni,“ segir Björgvin sem viðurkennir að honum hafi þó þótt þetta ansi stressandi.

„Síðan eftir Eurovision þá er ég svolítið á sönglagarúntinum,“ segir Björgvin sem tók þrisvar þátt í írsku söngvakeppninni og stóð í eitt skiptið uppi sem sigurvegari.

Björgvin Halldórsson er án efa einn ástsælasti söngvari landsins.Vísir/Vilhelm

Í kjölfarið var hann beðinn um að taka þátt í söngvakeppni í Pamukkale á Tyrklandi og syngja á tyrknesku í beinni útsendingu fyrir allt Tyrkland og nærliggjandi þjóðir.

„Svo kemur að þessu og við förum niður eftir og allir í smink og allt gert klárt. Svo allt í einu koma menn inn í búningsherbergið með byssur: „Allir út, allir út núna!““

Söng fyrir landstjórann í Tyrklandi

Björgvin og aðrir keppendur þorðu ekki öðru en að hlýða. Þeir stauluðust út í steikjandi hitann og Björgvin lýsir því hvernig sminkið lak af honum.

Byssumennirnir hafi svo kíkt í hvert horn áður en þeir tilkynntu að svæðið væri öruggt. „Af því þá var einhver að koma,“ segir Björgvin. „Svo förum við að kíkja á þetta allir þátttakendurnir og þá kemur svona opinn Cadillac með landstjóranum, allur borðalagður.“

Björgvin söng því fyrir sjálfan landstjórann og lenti í öðru sæti í keppninni.

Klippa: Allt í einu koma menn inn í búningsherbergið með byssur

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.