Eldgosið á Heimaey telst með stærstu viðburðum Íslandssögunnar, en yfir fimm þúsund íbúar Vestmannaeyja þurftu í skyndi að yfirgefa heimili sín um nóttina þegar gossprunga opnaðist í jaðri byggðarinnar árið 1973.
Í dag fimmtíu árum síðar verður lágstemmd minningardagskrá í Eyjum.
„Það byrjaði í nótt með upplestri hjá 10. bekk í Eldheimum á gostengdum textum. Svo núna er minningarfundur bæjarstjórnar í hádeginu. Svo er minningarstund fyrir utan Landakirkju klukkan 18:45 og að henni lokinni verður gengið með kyndla upp í Eldheima þar sem verður athöfn. Forseti Íslands, forsætisráðherra og forseti bæjarstjórnar verða með ávörp. Svo verða tónlistartengd atriði þar,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Fjölmargir Eyjamenn komu á land fyrir helgi til að sækja tónleika sem haldnir voru í Hörpu á laugardaginn vegna tímamótana. Vegna veðurins komust þeir ekki heim með Herjólfi í gær sem Íris segir táknrænt.
„Þetta er eiginlega sama dramatíkin og var fyrir fimmtíu árum. Veðrið í gær var mjög svipað því og það var 22. janúar 1973. Og veðrið í dag er líka svipað og það var því nú er bara blíða. Samgöngurnar ganga, það er siglt í Landeyjahöfn og fólk kemst heim.“
Íris segist óendanlega þakklát þeim sem tóku ákvarðanir fyrir fimmtíu árum síðan.
„Ég vil þakka þeim sem tóku ákvarðanir á þessum tíma og komu að því að byggja upp okkar yndislegu eyju. Annars værum við ekki hér í dag. Ég er þakklátur bæjarstjóri Vestmannaeyja í dag fyrir alla þá sem gerðu þetta kleift.“
Íris ræddi tímamótin enn fremur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.