Í tilkynningu á vef Framsóknar segir að Sonja Lind hafi lokið BA-gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020 og fengið verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Hún hafi svo útskrifast með ML í lögfræði frá sama skóla í lok janúar 2023.
„Sonja hefur starfað sem starfsmaður þingflokks Framsóknar frá árinu 2020. Áður en hún kom til starfa fyrir þingflokk Framsóknar vann hún hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, þá hefur Sonja víðtæka reynslu í hótel- og veitingarekstri. Sonja hefur tekið þátt í félagsstörfum fyrir Framsókn, hún hefur m.a. verið formaður Framsóknarfélags Borgarfjarðar og Mýra, þá situr hún í fræðslu og kynningarnefnd Framsóknar og Velferðarnefnd Borgarbyggðar.
Sonja er 41 árs, gift Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingi og er búsett í Borgarnesi,“ segir í tilkynningunni.
Hlutverk verkefnastjóra þingflokks er að aðstoða þingflokksformann og þingmenn við störf þeirra á Alþingi auk þess að halda utan um skipulag og dagleg störf þingflokksins, samskipti, starfsmannamál og önnur verkefni í samráði við þingflokksformann.