Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það séu dálítil él á norðanverðu landinu, en annars þurrt.
Í dag lægi svo víða og birtir upp með vægu frosti. Það léttir fyrst til vestan- og sunnanlands og síðdegis um landið norðaustanvert.
„Í kvöld og nótt er síðan vaxandi sunnanvindur á landinu og það má búast við hlýindum og rigningu á morgun, talsverð úrkoma sunnan- og vestanlands. Annað kvöld snýst síðan til vestlægari áttar með éljum og kólnar. Útlit er fyrir hvassa vestan- og suðvestanátt á föstudag með éljagandi, en þurru veðri austanlands. Hiti þá um eða undir frostmarki.
Næstu daga þar á eftir er síðan áfram útlit fyrir umhleypingar með lægðagangi og nokkuð órólegt veður með köflum,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Sunnan 10-18 m/s og rigning, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti 5 til 12 stig. Vestlægari um kvöldið með éljum og kólnandi veðri.
Á föstudag: Vestan og suðvestan 15-23 og él, en þurrt austanlands. Hiti um eða undir frostmarki.
Á laugardag: Suðlæg átt með slyddu eða snjókomu, síðar talsverð rigning sunnan- og vestanlands. Hlýnandi veður.
Á sunnudag: Norðvestanátt og él, kólnar aftur.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir áframhaldandi umhleypinga.