Lífið

Sagður hafa bjargað frænda sínum þegar slysið varð

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town.
Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town. Getty

Bandaríski stórleikarinn Jeremy Renner er sagður hafa verið að reyna að koma í veg fyrir að snjótroðari rynni og rækist á eldri frænda sinn þegar hann varð sjálfur undir bílnum í slysi á fyrsta degi ársins.

Þetta kemur fram í atvikaskýrslu lögreglunnar í Nevada að því er segir í frétt CNN. Í skýrslunni er ljósi betur varpað á slysið, en á fjórða tug beina í líkama Renner brotnuðu í slysinu og var hann um tíma talinn vera í lífshættu.

Hinn 51 árs Renner hafði notað snjótroðarann við heimili sitt nærri Tahoe-vatni til að draga pallbíl frændans sem fastur var í snjó. Renner fór svo út úr troðaranum án þess að virkja sérstaka neyðarbremsu og fór hann þá að renna til hliðar. Í skýrslunni kemur ennfremur fram að bremsuljósið hafi ekki verið virkt og „tæknivandræði kunni að hafa átt þátt í slysinu“.

Renner er sagður hafa reynt að stöðva eða stýra snjótroðaranum til að koma í veg fyrir að slys yrði á frændanum og hafi þá orðið undir hinum 6.500 kílóa troðara sem er af gerðinni Pistenbully.

Frændi Renner hlúði að Renner þar til að sjúkralið bar að garði og flutti hann svo með þyrlu á sjúkrahús í Reno þar sem hann gekkst undir aðgerð. Hann var með mikla áverka á bringu og fótlegg.

Renner hefur verið duglegur að halda aðdáendum sínum upplýstum um batann með því að birta myndir á samfélagsmiðlum. Hann sneri aftur heim til sín af sjúkrahúsinu um miðjan mánuðinn.

Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town. Þá er hann einnig þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk ofurhetjunnar Clint Barton, einnig þekktur sem Hawkeye, í Marvel-myndunum Avengers. Þá fór hann með hlutverk Aaron Cross í myndinni The Bourne Legacy frá árin 2012.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.