Erlent

Vildu meina Santos að­gengi að leyni­legum gögnum en Mc­Cart­hy sagði nei

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Santos ásamt öðrum umdeildum þingmanni Repúblikanaflokksins, Marjorie Taylor Greene.
Santos ásamt öðrum umdeildum þingmanni Repúblikanaflokksins, Marjorie Taylor Greene. epa/Shawn Thew

Tveir Demókratar í fulltrúadeild bandaríska þingsins hafa skorað á þingforsetann, Repúblikanann Kevin McCarthy, að meina George Santos, þingmanni Repúblikana frá New York, um aðgengi að trúnaðargögnum.

Demókratarnir, Joe Morelle og Gregory Meeks, segir þjóðaröryggi Bandaríkjanna mögulega í húfi.

Santos hefur, eins og þekkt er orðið, gerst uppvís að því að skálda ferilskrá sína og lífshlaup en hefur engu að síður tekið sæti á þinginu og meira að segja verið skipaður í þingnefndir.

Morelle og Meeks segja í áskorun sinni til McCarthy að Santos hafi brugðist trausti almennings við mörg tilefni og að aðgengi hans að ríkisleyndarmálum feli í sér töluverða áhættu með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna.

Þingmennirnir vilja ekki bara takmarka aðgengi Santos að gögnum heldur einnig að fundum þar sem öryggismál eru til umræðu.

McCarthy hefur þegar sagt að hann hyggist ekki grípa til aðgerða gegn Santos, enn sem komið er. 

Þess ber að geta að til þess að ná loks meirihluta í 15. umferð atkvæðagreiðslunnar um þingforseta, samþykkti McCarthy þá reglubreytingu sem nú hefur gengið í gegn að það þarf aðeins einn þingmann til að kalla eftir atkvæðagreiðslu um afsögn þingforseta. 

McCarthy á þannig mikið undir því að halda flokkssystkinum sínum ánægðum.

Komið hefur í ljós að Santos, 34 ára, sætir rannsóknum á öllum stigum bandaríska stjórnkerfisins og í Brasilíu, þar sem hann liggur undir grun um að hafa notað stolna tékka. Þá var hann þekktur sem Anthony Devolder um tíma og hefur orðið uppvís að furðulegum lygum, til dæmis að hafa átt að birtast í Vogue.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×