Innlent

Fordæma framgöngu ríkissáttasemjara

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gunnar Smári Egilsson er formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Gunnar Smári Egilsson er formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins. Vísir/Vilhelm

Sósíalistaflokkur Íslands hefur bæst í hóp þeirra sem fordæma framgöngu ríkissáttasemjara í yfirstandandi kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Í ályktun félagsfundar Sósíalistaflokssins er ríkissáttasemjari sagður leggja alla áherslu á að ganga frá samningum við önnur félög en láta kjaradeilu Eflingar sitja á hakanum. 

„Þegar Efling sætti sig ekki við þá samninga lagði sáttasemjari fram tilboð Samtaka atvinnulífsins sem sína miðlunartillögu. Freistar með því að þröngva tilboði SA upp á Eflingu,“ segir í ályktun.

Ríkissáttasemjari hefur óskað eftir liðsinni héraðsdóms til að fá kjörskrá Eflingar afhenta í tengslum við atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu hans í kjaradeilu félagsins og Samtaka atvinnulífsins. Fjölmenn stéttarfélög opinberra starfsmanna og stjórn Starfsgreinasambandsins hafa ályktað gegn framlagningu miðlunartillögu og segja hana grafa undan rétti stéttarfélaga.

„Það er ljóst að tillagan stangast á við hefðir í kjaradeilum og hún brýtur gegn hugmyndum almennings um sanngirni, að ríkissáttasemjari taki upp tilboð annars deiluaðila og neyði það upp á hinn. Með miðlunartillögunni hefur Aðalsteinn því misst traust launafólks. Honum ber því að draga tillögu sína til baka og segja af sér, í það minnsta víkja sem ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA.“

Ríkissáttasemjari er sagður vanhæfur til að stýra viðræðum fátæks launafólks gagnvart þeim sem það selur vinnuafl sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×