Við ræðum við formann Eflingar um málið, sem og verkáætlun Eflingar í tengslum við mögulegar verkfallsaðgerðir, í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.
Þá sýnum við einnig magnaðar myndir frá miklu krapaflóði sem varð í Hvítá í Hrunamannahreppi á föstudag. Bóndi segir svæðið óþekkjanlegt og man ekki eftir öðru eins flóði. Og meira af veðri; við ræðum við veðurfræðing í beinni útsendingu um storminn og stórhríðina sem spáð er víða á landinu á morgun.
Við tökum einnig stöðuna á máli Tyre Nichols sem nú skekur Bandaríkin og ræðum við áhyggjufullan bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar sem óskað hefur eftir fundi með lögreglu strax í fyrramálið vegna alvarlegs bílslyss sem varð í bænum á föstudag. Bæjarbúar vilja að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir hraðakstur, til dæmis með uppsetningu hraðamyndavélar.
Og loks fjöllum við um mál sem eflaust stendur mörgum nærri: nágrannaerjur. Þær geta verið mjög fljótar að vinda upp á sig og verða oft einna verstar í tví- og þríbýli, að sögn lögfræðings sem aðstoðað hefur nágranna við að ná sáttum í deilum sem gjarnan enda í algjörum hnút. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum klukkan 18:30.