Upp komst um bilunina í Rimakotslínu 1 klukkan 16:05 en þegar í stað var hafist handa við að ræsa varaafl í Vestmannaeyjum. Það var komið á um klukkan fimm að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets.
„Það er búið að keyra varaafl í Vestmannaeyjum og Vík og Landeyjum þannig það ættu allir að vera komnir inn nema hluti af Vestmannaeyjum, það eru einhverjar mínútur í það,“ segir hún.
„Það er ekki búið að gera við línuna sem fór út en við erum að senda fólk á staðinn til að skoða þetta en það er snælduvitlaust veður á svæðinu,“ segir hún enn fremur.
Appelsínugul viðvörun er nú í gildi á Suður- og Suðausturlandi en líklegast er bilunin tilkomin vegna veðurs. Ekki hafa komið upp truflanir annars staðar í kerfum Landsnets.
„Það er verið að leita að biluninni og á meðan er svæðið keyrt með varaafli þannig það ættu allir að vera komnir með rafmagn eða að detta inn mjög fljótlega,“ segir Steinunn.