Skoðun

Ferð til Vestmannaeyja - Örsaga um orkuskipti

Sævar Helgi Bragason skrifar

Í fyrra var mér boðið að heimsækja bókasafnið í Vestmannaeyjum. Það var yndisleg og skemmtileg heimsókn í alla staði. Vestmannaaeyjar eru enda með fallegustu stöðum landsins. Innsiglingin stórfengleg og bæjarstæðið engu líkt. Þangað er eiginlega alltaf gaman að koma.

En þegar heim var komið rann það loks upp fyrir mér. Ég hafði fengið nasasjón af framtíðinni.

Ég ók nefnilega rafbíl í Landeyjahöfn.

Úr Landeyjahöfn flutti rafknúinn Herjólfur okkur farþegana til Vestmannaeyja.

Í Vestmanneyjum leigði ég svo Hopp-rafhlaupahjól við landganginn.

Fimm mínútum eftir að rafferjan lagðist að bryggju var ég kominn á bóksafnið.

Fyrir fáeinum árum hefði ég losað nærri 50 kg af gróðurhúsalofttegundum á sama ferðalagi, fram og til baka. Í þetta sinn var losunin 0 kg af gróðurhúsalofttegundum því allt ferðalagið var knúið hreinni innlendri raforku.

Loftið var hreinna og hávaðinn miklu minni. Enginn þurfti að anda að sér sóti og bensíngufum úr rafbílnum eða ferjunni. Það var notalegt að standa úti á dekki í Herjólfi og hlusta á hafið og vindinn en ekki hávær vélahljóð. Sjávarloftið var líka merkilega ferskara en díselbræla gráu fortíðarinnar.

Aksturinn fram og til baka kostaði rétt rúmar 900 kr. Á bensínbíl hefði ferðin kostað mig tíu sinnum meira, rúmar 9000 kr. Hopp-leigan kostaði 300 kr. og fargjaldið í Herjólf 2200 kr. Heildarkostnaður því 3400 kr en ekki 14.500 kr hefði fortíðar-ég orðið fórnarlamb eigin leti og tekið bensínbíl með í ferjuna. Fjórfalt ódýrara. Býsna góður sparnaður það.

Þriðju orkuskiptin eru hafin. Þvílíkt gæfuspor fyrir lungu okkar, eyru, andrúmsloft og fjárhag. Drífum þetta almennilega af stað. Framtíðin er núna.

Höfundur er vísindamiðlari og jarðarbúi sem horfir björtum augum á framtíðina




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×