Skoðun

Mun fisk­vinnsla í Stykkis­hólmi leggjast af?

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Á síðasta ári var sett á laggirnar nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Nú eru komnar fram tillögur um ýmis atriði, sumar allra athyglisverðar en aðrar að mati undirritaðs, ekki á vetur setjandi.

Svo ég vindi mér beint að efni þessarar greinar: Ein tillagan, er að fella niður skelbætur í Breiðafirði. Bótasaga vegna skelveiða er orðin tuttugu ára gömul og er í raun sorgarsaga um hvað stjórnvöldum eru oft mislagðar hendur þegar kemur að ákvörunum um lausnir þegar öll rök liggja á borðinu um að ganga hreint til verks.

Á sínum tíma í upphafi kvótakerfisins eða árið 1984 og verið var að setja hörpudisk ásamt flestum sjávartegundum í kvóta, voru skelveiðar skilgreindar með ,,sérleyfi“. Þá var skelveiðihöfum sem stunduðu þessar veiðar, gert að láta frá sér 35% af þorskveiðiheimildum til að fá kvóta í hörpudisk. Þetta voru afarkostir (skilyrði).

Árið 2003 hrinur stofn hörpudisks vegna sýkingar og allar skelveiðar stöðvast. Þá voru settar á skelbætur af stjórnvöldum í formi bolfisks sem átti að „trappast“ niður á nokkrum árum eða þar til stofn hörpudisksin væri búinn að ná veiðiþoli á ný. Ekkert hefur ræst úr því 20 árum seinna, þó á tímabili væru gerðar tilraunaveiðar sem svo sýndu frammá að sá vonarneisti byggðist ekki á raunhæfum væntingum.

Tíu árum eftir hrun hörpudisks stofnsins þegar þessar skelbætur áttu að renna út fóru skelveiðihafar á fund stjórnvalda í því markmiði að finna lausn á vandanum. Þá voru skelbætur framlengdar um eitt ár en voru í þorskígildum 1/3 af þeim þoskkvóta sem útgerðir í Stykkishólmi þurftu að láta frá sér árið 1984 til að fá skelkvóta. Síðustu tíu ár hafa útgerðamenn í Stykkishólmi farið á hverju ári til fundar við stjórnvöld um lausn á málinu. Ýmsar þreifingar hafa átt sér stað en engin varanleg lausn. Og nú blasir við að ein af tillögum frá hópi sem sjávarútvegsráðherra skipaði í fyrra, leggur til að skelbætur verði lagðar af.

Í dag vinnur eitt fyrirtæki í Stykkishólmi bolfiskvinnslu sem er Þórsnes hf. Þessi fiskvinnsla vinnur um 5000 tonn á ári og er töluverður hluti þess fisks keyptur á markaði. Þar er hljóðið mjög þungt í mönnum og jafnvel talað um að loka fyrirtækinu ef skelbætur verði teknar af.

Varla getur sjávarútvegsráðherra, sem talar mikið fyrir byggðafestu og eflingu brothættra byggða, tekið þátt í því að fiskvinnsla í Stykkishólmi leggjist af!?

Höfundur er áhugamaður um eflinu byggða á íslandi öllu og varaþingmaður fyrir Miðflokkinn í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×