Í tilkynningu sem KSÍ sendi frá sér segir að það sé búið að láta UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, vita af þessari ákvörðun.
„Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að umspilsleikir A landsliðs karla séu leiknir í marsmánuði [heima og/eða heiman] og skemmst er að minnast EM umspilsleiks sem karlaliðið átti að leika við Rúmeníu á Laugardalsvelli í mars 2020, sem ekki varð þó af vegna Covid faraldursins. KSÍ hafði lagt í umtalsverðan kostnað við að undirbúa leikinn og gera Laugardalsvöll leikhæfan þegar leikurinn var blásinn af,“ segir í tilkynningu KSÍ.
„UEFA kynnti nýverið nýtt fyrirkomulag keppna A-landsliða kvenna og hefur Þjóðadeild verið sett á laggirnar, líkt og í keppna karla landsliða. Í nýja fyrirkomulaginu eru á dagskrá umspilsleikir í febrúar [heima og að heiman] og hafi það þótt ærið verkefni að gera Laugardalsvöll leikhæfan í mars ár hvert miðað við núverandi ástand leikvangsins, þá er ljóst að febrúar er enn erfiðara verkefni,“ segir jafnframt í tilkynningu sambandsins.
Verða einhverjir Íslendingar á Tene í febrúar eða mars? https://t.co/e17dwLpv2t
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) February 10, 2023
Þá er farið yfir hvernig Laugardalsvöllur er uppsettur. Hann er opinn leikvangur, án þaks og með litlu sem engu skjóli fyrir veðri og vindum. Þá er bent á að ekki sé hitakerfi undir vellinum sjálfum.
Ekki kemur fram hvaða landa KSÍ horfir til.
Vegna möguleikans á að A landslið karla leiki umspilsleiki í mars og að A landslið kvenna leiki umspilsleiki í febrúar á komandi árum hefur stjórn KSÍ ákveðið að fela framkvæmdastjóra að kanna mögulega leikstaði erlendis sem valkosti fyrir heimaleiki A landsliða Íslands ef til þess kemur.
Markmiðið er vissulega alltaf að liðin komist beint í lokakeppni [eða forðist fall um deild í Þjóðadeild, ef við á] án þess að þurfa að leika í umspilsleikjum, en rétt er að huga að undirbúningi og kanna fýsileika annarra valkosta ef til þess kæmi að það markmið næðist ekki og að leiðin í lokakeppni [eða að forðast fall] verði í gegnum umspilsleiki í mars eða febrúar.