Innlent

Eldur í ljósastaur og grunsamlegt Ofurskálaráhorf

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast á þessari aðfaranótt mánudags þrátt fyrir leiðinlegt veður. Lögreglan var meðal annars kölluð út vegna skemmda í sameign í bílakjallara og vegna elds í ljósastaur.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar kemur jafnframt fram að ökumaður bifreiðar hafi verið stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hann jafnframt með fíkniefni á sér og nokkuð magn fjármuna. Maðurinn er grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og var því vistaður í fangaklefa í þágu rannsókar. Þá voru tveir stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.

Tilkynnt var um ógnandi mann á bensínstöð í miðbænum sem ruddi hlutum úr hillum og kastaði smáhlutum í átt að starfsmönum en var farinn þegar lögreglu bar að garði. 

Lögreglu barst þá tilkynning um æstan mann á stigagangi fjölbýlishúss en ekkert fylgir um hvort afskipti hafi verið höfð af honum. Þá var tilkynnt um annan sem gekk út af veitingastað án þess að greiða fyrir veitingar. 

Tilkynnt var um hávaða og umgang frá fyrirtæki í Kópavogi sem tilkynnanda fannst grunsamlegt að næturlagi. Hávaðinn reyndist eiga sér eðlilegar skýringar en þar var starfsfólk að horfa á Ofurskálina. Lögreglu barst einnig tilkynning um berfættan mann í annarlegu átandi að reyna að húkka sér far í Árbæ en hann fannst ekki þrátt fyrr leit. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×