Fótbolti

Sverrir og félagar köstuðu frá sér tveggja marka forskoti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason í leik með PAOK.
Sverrir Ingi Ingason í leik með PAOK. PAOK

Sverrir Ingi Ingason og félagar hans í PAOK þurftu að sætta sig við 2-2 jafntefli er liðið sótti Asteras Tripolis heim í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, en Sverrir og félagar voru 2-0 yfir þegar venjulegum leiktíma lauk.

Gestirnir í PAOK tóku forystuna strax í upphafi leiks þegar Norðmaðurinn Ivan Nasberg kom boltanum í netið. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Varamaðurinn Brandon Thomas tvöfaldaði svo forystu PAOK þegar aðeins átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og Sverrir og félagar því í ansi góðri stöðu fyrir lokamínúturnar.

Á einhvern ótrúlegan hátt tókst heimamönnum þó að skora tvö mörk í uppbótartíma leiksins og tryggja sér þannig ótrúlegt jafntefli. Lokatölur 2-2 og PAOK situr nú í þriðja sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir Panathinaikos sem trónir á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×