Erlent

Að minnsta kosti 6.000 börn send í „endur­menntunar­búðir“ í Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sum barnanna eru sögð hafa verið lokkuð burt undir því yfirskini að þau væru að fara í sumarbúðir.
Sum barnanna eru sögð hafa verið lokkuð burt undir því yfirskini að þau væru að fara í sumarbúðir. epa/Oleg Petrasyuk

Að minnsta kosti 6.000 börn frá Úkraínu hafa verið send í svokallaðar „endurmenntunarbúðir“ í Rússlandi, með það að markmiði að heilaþvo þau með rússneskum áróðri. Hundruð barna var haldið í búðunum í margar vikur eða mánuði.

Þetta kemur fram í skýrslu Yale Humanitarian Research Lab, sem var fjármögnuð af bandaríska utanríkisráðuneytinu. Í skýrslunni segir einnig að ættleiðingum og fóstrunum barna frá Úkraínu hafi verið flýtt, þannig að mögulega sé um stríðsglæp að ræða.

Í skýrslunni segir að frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir nær ári hafi fjöldi barna, allt niður í fjögurra mánaða gömul, verið flutt í 43 búðir víðsvegar um Rússland. Markmiðið hafi verið að veita þeim „endurmenntun“ í föðurlandsást til Rússlands.

Börnin eru sögð hafa verið tekin í vettvangsferðir á mikilvæga staði í sögu Rússlands og hafa fengið fyrirlestra frá fyrrverandi hermönnum. Þá segir að þau hafi fengið þjálfun í notkun skotvopna, þótt ekkert bendi til þess að þau hafi verið send aftur til að berjast á átakasvæðum.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði í yfirlýsingu að niðurstöður skýrslunnar væru enn ein sönnunargögnin þess efnis að Rússar ynnu markvisst að því að bæla niður þjóðerniskennd Úkraínumanna, sögu þeirra og menningu. 

„Hörmulega áhrif stríðs Pútíns á börn Úkraínu munu vara í kynslóðir,“ sagði í yfirlýsingunni.

Kallað hefur verið eftir því að óháður aðili fái aðgang að búðunum og að ættleiðingar úkraínskra barna til Rússlands verði stöðvaðar tafarlaust.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×