Erlent

Kom í veg fyrir að lög­reglu yrði bannað að leggja hald á gögn um tíða­hring kvenna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Youngkin vill takmarka verulega rétt kvenna til þungunarrofs.
Youngkin vill takmarka verulega rétt kvenna til þungunarrofs. epa/Shawn Thew

Glenn Youngkin, ríkisstjóra Virginíu í Bandaríkjunum, hefur tekist að stöðva framgang frumvarps sem kveður á um að lögreglu sé ekki heimilt að leggja hendur á gögn úr smáforritum sem konur nota til að skrásetja og fylgjast með tíðahring sínum.

Repúblikaninn Youngkin er sagður hafa beitt sér fyrir því að frumvarpið var svæft í undirnefnd, með því að færa þau rök fyrir nefndinni að það væri ekki löggjafans að takmarka leitarheimildir lögreglu. 

Stuðningsmenn frumvarpsins óttast hins vegar að gögn úr smáforritum verði notuð í dómsmálum gegn konum sem gangast undir þungunarrof, eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna snéri niðurstöðunni í Roe gegn Wade og setti þar með löggjafarvaldið í málaflokknum aftur í hendur einstakra ríkja.

Það vakti athygli að umrætt frumvarp hafði þegar verið samþykkt í efri deild Virginíu-þings, þar sem það naut stuðnings meirihluta Demókrata og níu Repúblikana. 

Einn þeirra, kvensjúkdómalæknirinn Siobhan Dunnavant, hefur verið afar gagnrýnin á frumvarp sem Youngkin vill leggja fram og kveður á um bann við þungunarrofum eftir 15. viku meðgöngu. Segist hún ekki munu styðja það nema undanþága verði gerð vegna fósturgalla, allt fram á 24. viku.

Eins og stendur er konum í Virginíu frjálst að gangast undir þungunarrof fram að 27. viku.

Þess má geta að í Flórída hurfu skólayfirvöld frá því á dögunum að krefjast þess að stúlkur sem vildu stunda íþróttir gæfu upplýsingar um blæðingar sínar. Gagnrýnendur sögðu kröfurnar í takt við stefnu ríkisstjórans Ron DeSantis um að draga úr réttindum trans fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×