Sport

Tíma­móta­sigur Shiffrin en Katla féll úr keppni

Sindri Sverrisson skrifar
Mikaela Shiffrin á ferðinni í Frakklandi í dag, á leið sinni að heimsmeistaratitlinum í stórsvigi.
Mikaela Shiffrin á ferðinni í Frakklandi í dag, á leið sinni að heimsmeistaratitlinum í stórsvigi. Getty/Michael Kappeler

Bandaríska skíðadrottningin Mikaela Shiffrin vann í dag stórsvig á HM í fyrsta sinn ásínum magnaða ferli og hefur nú unnið 13 verðlaun á nútíma heimsmeistaramótum, flest allra.

Þetta er sjöundi heimsmeistaratitill Shiffrin en hún þurfti að hafa fyrir hlutunum í Frakklandi í dag og endaði aðeins 12/100 úr sekúndu á undan hinni ítölsku Federica Brignone, á samtals 2:07,13 mínútum.

Shiffrin var að keppa aðeins tveimur dögum eftir að hafa sagt skilið við þjálfara sinn, á miðju heimsmeistaramóti.

Marta Bassino, sem varð heimsmeistari í risasvigi, var 13. eftir fyrri ferðina í stórsviginu í dag en átti frábæra seinni ferð og hélt forystunni þar til að fimm keppendur voru eftir. Þá náði hin norska Ragnhild Mowinckel fram úr henni og fleiri fylgdu í kjölfarið.

Federica Brignone frá Ítalíu endaði í 2. sæti en hinni frönsku Tessu Worley tókst ekki að fylgja eftir góðri fyrri ferð á heimavelli, því hún rann í brekkunni og missti frá sér verðlaunasæti. Þá átti aðeins Shiffrin eftir að skíða og hún náði að halda forystunni þrátt fyrir að tapa tíma seinni hluta ferðarinnar.

Mowinckel hélt verðlaunasæti og fékk brons, 22/100 úr sekúndu á eftir Shiffrin.

Katla Björg Dagbjartsdóttir keppti í stórsviginu, sinni fyrstu grein á HM, en féll úr keppni í fyrri ferðinni eftir að hafa ekki náð að komast í mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×