Fótbolti

Arnór tryggði Norrköping bikarsigur | Alfreð bjargaði stigi gegn toppliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Ingvi var á skotskónum í dag.
Arnór Ingvi var á skotskónum í dag. Twitter@ifknorrkoping

Það var nóg um að vera hjá íslenskum knattspyrnumönnum í hinum ýmsu deildum og bikarkeppnum í evrópskum fótbolta í dag. Arnór Ingvi Traustason tryggði Íslendingaliði Norrköping sigur gegn GAIS í sænska bikarnum og Alfreð Finnbogason bjargaði stigi fyrir LYngby gegn toppliði Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Norrköping gegn GAIS í dag ásamt þeim Arnóri Sigurðssyni og Ara Frey Skúlasyni. Andri Lucas Guðjohnsen var hins vegar ótnotaður varamaður í leiknum.

Það var svo Arnór Ingvi sem skoraði eina mark leiksins þegar hann kom Norrköping í forystu stuttu fyrir hálfleik. Norrköping vann því að lokum 1-0 útisigur og trónir á toppi sjöunda riðils eftir einn leik.

Í viðureign Kalmar og Trelleborg voru þeir Davíð Kristján Ólafsson og Böðvar Böðvarsson í byrjunarliðum sinna liða, en Davíð og félagar í Kalmar unnu að lokum nauman 3-2 sigur.

Þá reyndist Alfreð Finnbogason hetja Lyngby er hann bjargaði stigi fyrir liðið gegn toppliði Nordsjælland. Alfreð jafnaði metin í 1-1 á annarri mínútu uppbótartíma stuttu eftir að gestirnir í Nordsjælland höfðu misst mann af velli með rautt spjald.

Lyngby situr þó enn á botni deildarinnar með aðeins níu stig eftir 18 leiki, en Nordsjælland trónir á toppnum með 36 stig.

Í öðrum leikjum í dönsku deildinni var Hákon Arnar Haraldsson í byrjunarliði FCK sem vann öruggan 3-0 útisigur gegn Stefáni Teiti Þórðarsyni og félögum hans í Silkeborg og Aron Elís Þrándarson kom inn á sem varamaður fyrir OB er liðið gerði markalaust jafntefli gegn Randers.

Þá var Albert Guðmundsson í byrjunarliði Genoa er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Modena í ítölsku B-deildinni og í Belgíu máttu Jón Dagur Þorsteinsson og félagar hans í OH Leuven þola 2-0 tap gegn Gent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×