Innlent

Kveikti í tveimur rusla­gámum í Kópa­vogi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Dælubílar slökkviliðsins fóru í þrjú útköll í nótt.
Dælubílar slökkviliðsins fóru í þrjú útköll í nótt. Vísir/Vilhelm

Dælubílar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu fóru í þrjú útköll í nótt, þar af tvö vegna íkveikja í ruslagámum í Kópavogi. Þriðja útkallið var vegna hugsanlegs elds í bíl. 

Slökkviliðið fór í alls sjötíu sjúkraflutninga í gær, þar af 28 forgangsflutninga. Talið er að sami aðilinn hafi kveikt í ruslagámunum tveimur en í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins segir að íkveikjurnar séu hluti af mörgu sem slökkviliðsmenn væru alveg til í að vera lausir við. 

Það var lítið að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 105 og innbrot í fyrirtæki í Laugardalnum. 

Þá var bifreið stöðvuð í Hafnarfirði en hún hafði verið tilkynnt stolin. Í bílnum var ökumaður ásamt tveimur farþegum en þeir voru handteknir, grunaðir um þjófnað á bifreiðinni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur bifreiðar sviptur ökuréttindum. 

Tilkynnt var um umferðaróhapp í Mosfellsdal en þar höfðu ferðamenn misst stjórn á bifreið sinni vegna hálku og endað utan vegar. Enginn slasaðist en kalla þurfti á dráttarbifreið til að koma bifreiðinni aftur upp á veg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×