Erlent

„Rússar munu aldrei bera sigur úr býtum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í Póllandi í dag.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í Póllandi í dag. AP/Michal Dyjuk

Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, reyndi það ekki eingöngu á Úkraínumenn. Það reyndi á allan heiminn. Þetta sagði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í ræðu sem hann hélt í Póllandi í dag en þar sagði hann Vesturlönd standa sameinuð gegn innrás Rússa í Úkraínu.

Biden sagði að Kænugarður stæði enn og þar ríkti enn frelsi.

Hann sagði einnig að Pólland væri einn af bestu bandamönnum Bandaríkjanna og þakkaði Andrzej Duda, forseta Póllands, fyrir að taka á móti sér.

Sjá einnig: Lítið sem kom á óvart í stefnuræðu Pútíns

Biden fór óvænt til Úkraínu í gær en þá sagðist hann mættur til Kænugarðs til að sýna fram á staðfastan stuðning Bandaríkjanna við lýðræði og fullveldi Úkraínumanna.

Sjá einnig: Biden í óvæntri heimsókn til Kænugarðs

„Einræðisherra, sem er staðráðinn að endurbyggja keisaraveldi mun aldrei geta slökkt í ást fólks á frelsi. Ofbeldi mun aldrei brjóta vilja hinna frjálsu á bak aftur og Rússar munu aldrei bera sigur úr býtum í Úkraínu,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Hann sagði rússneska hermenn og málaliða hafa framið óheyrileg ódæði í Úkraínu. Gert markvissar árásir á almenna borgara, pyntað fólk og nauðgað og rænt börnum í massavís. Biden sagði að viðbrögð úkraínsku þjóðarinnar og heimsins hefðu verið ótrúleg.

„Einu ári eftir að sprengjurnar byrjuðu að falla og rússneskum skriðdrekum var ekið inn í Úkraínu, er Úkraína enn sjálfstæð og frjáls,“ sagði Biden.

Horfa má á ræðu Bidens í heild sinni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×