Vladimir Putin forseti Rússlands var á kunnuglegum slóðum í ávarpi sínu til beggja deilda rússneska þingsins og hersins í dag. Rússar ættu ekki í baráttu við almenning í Úkraínu sem óskaði þess að vera frelsað af Rússum frá árásarstríði Vesturlanda gegn Rússlandi.

„Almenningur í Úkraínu er í gíslingu stjórnarinnar í Kænugarði og vestrænna meistara hennar, sem hafa í raun hertekið landið pólitískt, hernaðarlega og efnahagslega,“ sagði Putin í ávarpi sínu. Þessum öflum væri sama um fólkið í Úkraínu og hefði búið það til slátrunar.
„Þetta er sorglegt og maður hræðist að tala um það. En þetta er staðreynd,“ sagði Rússlandsforseti og uppskar mikið klapp. Hann minntist hins vegar ekki einu orði á tugi þúsunda rússneskra hermanna sem hafa fallið í innrás hans í Úkraínu.

Það kvað við allt annan tón í ávarpi Joe Biden Bandaríkjaforseta í Varsjá höfuðborg Póllands í dag.
„Fyrir einu ári óttaðist heimurinn að Kænugarður myndi falla. Ég er nýkominn úr heimsókn til Kænugarðs og ég get sagt ykkur að borgin stendur sterk. Kænugarður stendur með stolti og það sem mestu máli skiptir borgin er frjáls,“ sagði Biden.
Putin segir Vesturlönd hins vegar hafa byrjað stríðið og þau ætli sér að gereyða Rússlandi. Breyta staðbundnum átökum í alheimsátök. Biden segir Rússlandsforseta hins vegar hafa misreiknað sig.
„Hann hélt að NATO myndi koðna niður og sundrast. Þess í stað er NATO sameinaðra og þar er meiri samstaða en nokkru sinni áður. Hann hélt að hann gæti beitt orkunni sem vopni, og beygt Evrópu. Þess í stað vinnum við saman að því að gera Evrópu óháða jarðefnaeldsneyti frá Rússum,“ sagði Biden.

Putin segir Vesturlönd hins vegar gera sér grein fyrir að þau geti ekki sigrað Rússland á vígvellinum. Þau beittu því upplýsingaóreiðu og sögulegum lygum. Svo læddi hann að sannleikskorni um Vesturlönd, eða hvað?
„Sjáið hvað Vesturlönd gera sínu eigin fólki. Niðurrif fjölskyldunnar, menningarlegra og þjóðlegra gilda, öfuguggaháttinn, misnotkun á börnum vegna barnagirndar sem lýst er sem eðlilegum hluta af lífi þeirra,“ sagði Putin um hin siðspilltu Vesturlönd.
„Einræðisherra sem ætlar að byggja heimsveldi getur aldrei dregið úr ást fólksins á frelsinu. Grimmd mun aldrei mylja mátt hinn frjálsu og Rússar munu aldrei hafa sigur í Úkraínu,“ sagði Joe Biden við mikinn fögnuðalmennings og forystufólks frá Póllandi og víðar sem var á staðnum til að hlusta á ávarp hans.